13. Ágúst 2023
Bitcoin, fyrstu skrefin
ismynt.is
Í eftirfarandi leiðbeiningum er farið yfir það hvernig þú getur sett upp þitt eigið Bitcoin veski á tölvunni þinni, útbúið lykla og lagt inn á það.Eiginlegt eignarhald (self custody)
Eitt af þeim grunngildum sem Bitcoin er sprottið upp frá er hugmyndin um eiginlegt eignarhald (self custody), sem gengur út á það að eigandi Bitcoin sé hinn sanni handhafi sinnar inneignar og eigi ekki að treysta á þriðju aðila að meðhöndla sínar eignir. Eftirfarandi eru leiðbeiningar um það hvernig þú getur tekið þína hlutdeild að Bitcoin bálkakeðjunni og geymt hana á veski sem þú útbýrð sjálfur á þinni eigin tölvu, og verið hinn eiginlegi handhafi þinna rafmynta.
Bitcoin veski, lyklar og millifærslur
Við skulum byrja á smá inngangi um hvernig millifærslur eiga sér stað á Bitcoin netverkinu. Allar eignir á Bitcoin tilheyra ákveðnum lykli, þessi lykill er stafa- og talna-runa sem er nauðsynleg til að færa eignir sem tilheyra þessum lykli. Lyklar taka á móti millifærslum á svokallaðar addressur, en einn lykill getur haft margar addressur. Til að millifæra af lykli þarf að sendandinn að nota sinn eigin lykil, og svo þarf hann að tilgreina addressu þess lykils sem millifæra á til. Oft er notast við orðið "veski" þegar verið er að tala um lykil og inneignir og addressur sem tilheyra honum.
Varúð skal höfð!
Ef millifært er á vitlausa addressu, þá er mjög líklegt að enginn lykill sé að þeirri addressu, og þá er ómögulegt að millifæra þá inneign aftur og er hún því glötuð að eilífu. Því skal ávallt tví og þrí athuga allar addressur þegar að millifært er, og ávallt framkvæma prufu millifærslu með lágri upphæð áður en stórar fjárhæðir eru millifærðar.
Electrum veskið
Við munum notast við Electrum veskið til að útbúa okkar eigin lykil, addressu, og framkvæma okkar fyrstu millifærslur. Electrum veskið er þróað óhagnaðardrifið og er ókeypis öllum til notkunar, en mikilvægt er að einungis hlaða því niður beint af heimasíðu þeirra https://electrum.org.
Uppsetning á Electrum veskinu
Á electrum.org skal smella á "Download" og velja þar uppsetningar pakka eftir því stýrikerfi sem þú ert að keyra af tölvunni þinni (Við mælum með "Windows Installer" fyrir windows vélar). Þegar þú hefur hlaðið niður uppsetningar pakkanum skaltu keyra hann á tölvunni þinni.
1. Hvernig viltu tengjast öðrum serverum.
Fyrsta spurningin í uppsetningar ferlinu snýst að því hvernig veskið hefur samskipti við aðra server til að senda út og taka á móti upplýsingum af bálkakeðjunni. Þér er óhætt að láta sjálfvalda stillingu hér og velja "Auto connect" sem lætur Electrum veskið sjálfkrafa velja server til að tengjast.
2. Hvað á skráarheiti veskisins að vera.
Á þessari valmynd velur þú heiti veskisins, hér er gott að hafa í huga að þetta er einnig skráarheiti veskisins á harðadiski tölvunar og því gott að notast ekki við sértákn eða bil.
3. Hver er uppruni veskisins.
Á þessari valmynd er þér boðið að búa til nýtt veski frá grunni, búa til veski með tveggjafasa auðkenningu, búa til marglykla-veski, eða nota eldri lykil til að endurvekja veski. Í okkar tilfelli viljum við búa til nýtt veski og veljum því "Standard wallet", en það getur verið gott að kynna sér betur hina valmöguleikana og viljum við benda á heimasíðuna bitcoinelectrum.com fyrir góðar útskýringar og leiðbeiningar (https://bitcoinelectrum.com).
4. Búa til nýtt "Seed".
"Seed" er í raun lykill veskisins og hér er þér boðið að nota eldra seed eða seed af "hardware wallet". Í okkar tilviki viljum við búa til nýjan lykil og því veljum við "Create a new seed" en aftur getur það verið verðugt að kynna sér hina valmöguleikana.
5. Seed.
Á þessari síðu sérðu hið eiginlega "Seed" sem hefur verið útbúið. Þetta "Seed" virkar sem lykill veskisins og það er afar mikilvægt að þú geymir hann á öruggum stað, því ef hann glatast getur þú glatað öllum inneignunum á veskinu, og ef hann berst í hendurnar á öðrum aðilum, þá munu þeir aðilar geta millifært af þínu veski. Skrifaðu því "Seed"-ið niður og geymdu á öruggum stað, en hafðu það við hendina því á næstu síðu ertu beðinn um að slá það inn aftur.
6. Seed staðfesting.
Hér ertu beðinn um að skrifa inn aftur seed-ið sem þú skrifaðir niður í síðasta skrefi til að tryggja að það hafi verið rétt skrifað.
7. Veldu lykilorð.
Hér ertu að lokum beðinn um að velja lykilorð fyrir Electrum veskið, þetta lykilorð þarftu svo að slá inn í hvert sinn sem þú opnar Electrum veskið á tölvunni þinni.
Útbúa innlagnar addressu
Til hamingju, þú hefur nú búið til nýtt veski á vélinni þinni, næsta skref er svo að búa til addressu sem hægt er að leggja inná og flytja svo Bitcoin af ismynt.is á nýja veskið þitt
Byrjaðu á því að smella á "Receive" tabbinn. Þar gefur þú innlagnar addressunni nafn með því að slá það inn í "Description" dálkinn. Athugaðu að þessar upplýsingar sem gefnar eru upp hérna eru eingöngu fyrir þig og hafa ekki áhrif á hvernig millifærslur eru framkvæmdar á Bitcoin Bálkakeðjunni. Næst skaltu velja "Never" sem "Expiry" og að lokum smella á "Create Request" hnappinn.
Nú hefur verið útbúin addressa sem er tilbúin til innlagnar fyrir veskið þitt. Til að sjá addressuna sjálfa þarftu að hafa hana valda í neðri listanum og smella á hnappinn með græna merkinu í efra hægra horninu einsog sést á myndinni. Þegar það hefur verið gert sérð þú addressuna í efra hægra horninu.
Til að kópera addressuna getur þú smellt á hana beint í efra hægra horninu.
Taka út rafmynt af ismynt.is inn á nýja veskið
Nú þegar þú ert kominn með veski og innlagnar addressu er það eina eftir að leggja inná veskið. Besta leiðin til að gera þetta er að kaupa rafmyntir á ismynt.is, og taka þær út með því að gefa upp addressuna á nýja veskinu.
Við gerum ráð fyrir að þú hafir nú þegar keypt Bitcoin á ismynt.is en ef svo er ekki þá getur þú nálgast leiðbeiningar hér https://www.ismynt.is/KaupaBitcoin.
Úttektarsíða ismynt
Til að færa þína rafmynt af ismynt.is á nýja veskið þá opnar þú úttektar síðu ismynt. Hana er að finna í vinstri valmyndinni undir "Aðgerðir"->"Úttekt", eða fylgja hlekknum hér.
Í "Mynt til að taka út:" valslánni veljum við "BTC". Því næst sláum við inn upphæðina sem við viljum taka út, eða þá smellum á appelsínugula takkan merktan "100%" til að færa allar okkar Bitcoin.
Við "paste"-um svo inn addressuna úr Electrum yfir í addressu dálkinn á úttektarsíðunni og smellum á "Staðfesta úttekt" og fylgjum leiðbeiningunum þar.
Innan skams birtist inneignin þín í Electrum veskið þitt og þú hefur fulla stjórn á þinni hlutdeild í Bitcoin bálkakeðjunni.
Aðrar rafmyntir
Sama, eða svipað, ferli á við um allar aðrar rafmyntir, þar sem hugtökin um lykla, addressur og veski eiga við, og eru millifærslur framkvæmdar á sambærilegan hátt og við gerðum með Bitcoin, hinsvegar þurfum við að notast við annarskonar hugbúnað fyrir aðrar bálkakeðjur og oft eru einhverjar sérstæður tengdar hverri bálkakeðju og því er gott að kynna sér það vel áður en farið er af stað að millifæra stórar fjárhæðir.
Atriði sem gott er að hafa í huga
- Áður en stórar fjárhæðir eru millifærðar er ávallt mikilvægt að framkvæma prufu millifærslu fyrst með lágri upphæð til að ganga úr skugga um að allt sé rétt gert.
- Þegar verið er að Copy/Paste-a addressur á milli skal athug ekki bara fyrstu 5 og síðustu 5, því í dag eru til vírusar sem útbúa addressu sem getur verið svo lík þinni addressu að það er ekki lengur nóg að athuga aðeins fyrstu 5 eða seinust 5. Þeir svissa svo sinni eigin addressu út fyrir þína þegar að þú "paste"-ar addressunni. Ávallt lesa addressuna yfir áður en millifært er.
- Muna að "Seed"-ið þitt er lykillinn þinn að veskinu þínu og glatist hann geta inneignir þínar glatast, komist hann í hendur annarra geta aðrir millifært þínar bitcoin á önnur eða sitt eigið veski.
- Ef þú ert að meðhöndla háar fjárhæðir í rafmyntum getur það verið vel þess virði að setja upp vírusvarnar forrit til að minnka líkurnar á þjófnaði.
- Vertu alltaf með nýjust útgáfu af stýrikerfinu á tölvunni þinni til að minnka líkur á öryggisholum.