3. Mars 2024

Bitcoin hálfunin og hvaða þýðingu hefur hún fyrir rafmyntaheiminn?

Pétur Sigurðsson, stofnandi ismynt ehf.

Hvað er “hálfunin”?

Eftir hverja 210.000 blokk sem bætt er við bálkakeðjuna, er framleiðsla nýrra myntar helminguð. Myndun nýrra mynta á Bitcoin netverkinu verður þar eftir helmingi minni en fyrr, og kallast þessi viðburður „hálfunin“ (en. halvening/halfing) og áætlað er að þetta muni gerast næst 19. Apríl 2024.

Þessum viðburði er beðið með óþreyju af bálkakeðjunerðum um heim allan, enda er hann fyrirboði framboðsskorts sem að öllu jöfnu á sér stað vikurnar eftir. Framboðssjokk er oft orðið sem er notað þegar að framboðið minnkar en eftirspurnin eykst, og með tilkomu kauphallarsjóða er þetta einmitt sviðsmyndin sem hægt er að draga upp núna.

(Tæknilegar útskýringar á hálfuninni)

Þegar að Bitcoin var búið til var til staðar áætlun um heildar framboð mynta á netverkinu. Sett var upp sú framtíðaráætlun, að verðlaun þeirra sem stunda námugröft (búa til nýjar blokkir á bálkakeðjunni), muni minnka hægt og þétt, og á endanum hætta alfarið, og víkja fyrir færslugjöldum sem þeir greiða sem millifæra á netverkinu. Þetta er útfært á þann hátt, að eftir hverja 210.000 blokk sem reiknuð er á bálkakeðjunni, þá helmingast þær nýju rafmyntir sem verða til við hverja blokk. Þessar rafmyntir sem verða til eru verðlaun þess sem býr til blokkina, en hann fær einnig færslugjöld frá öllum þeim færslum sem blokkin hans inniheldur. Þessi reglulega helmingun gerir það að verkum, að myntir á netverkinu verða aldrei fleiri en 21 milljón. Á endanum verða verðlaunin engin, og munu þá þeir sem stunda námugröft alfarið treysta á færslugjöld þeirra sem millifæra á netverkinu, sem þýðir engar fleiri nýjar myntir.

Hvaða þýðingu hefur hálfunin á markaði?

Sú staðreynd að magn mynta á Bitcoin netverkinu er fyrirfram ákveðið (21 milljón), gerir það að verkum að um takmarkaða auðlind er að ræða. Það þýðir að verðbólgan sem við upplifum í daglegu lífi um heim allan, sem verslum með gjaldmiðlum sem prentaðir eru af seðlabönkum, er ekki til staðar í Bitcoin. Þetta þýðir að verð Bitcoin hækkar gagnvart hefðbundnum gjaldmiðlum í hvert sinn sem magn þeirra í umferð er aukið, eða þeir eru prentaðir, sem gerist reglulega.

Áhrif hálfunarinnar eru fyrst og fremst vegna áhrifa á framboð á markaðnum. Þegar að þeir sem stunda námugröft fá helmingi minni laun fyrir hverja blokk, þá geta þeir ekki selt eins mikið á markaðnum til að fjármagna sína starfsemi, og þá taka lögmál eftirspurnar og framboðs yfir og verðið hækkar til að endurspegla þann mismun sem verður á minnkandi framboði. Hafa ber í huga að þessi áhrif hafa hingað til ekki komið fram í verðbreytingum á Bitcoin, fyrr en allt að hálfu ári eftir að hálfunin á sér stað.

Hver er staðan í dag?

Í dag er staðan sú að eftir að Bandaríska Fjármálaeftirlitið (S.E.C.) samþykkti Bitcoin kauphallarsjóði (ETFs) hefur eftirspurn aukist töluvert. Heildar magn Bitcoin í téðum sjóðum hefur náð einni milljón mynta og aldrei verið jafn hátt, og verðið heldur áfram að hækka, þó svo að hálfunin hafi ekki ennþá átt sér stað. Það er því útlit fyrir að eftirspurnin haldi áfram að aukast og muni það gerast á sama tíma og framboðið minnkar. Þetta gæti haft mikil áhrif á allan rafmyntaheiminn og eru menn strax farnir að tala um að næsta góðæri sé gengið í garð.

Frá ársbyrjun 2023 hefur heildarmarkaðsvirði rafmynta tvöfaldast, og verð Bitcoin meira en þrefaldast. Aðrar rafmyntir hafa ekki allar séð sömu verðhækkun, en við höfum séð mikla framþróun á tækni annarra bálkakeðja, og ber þar helst að nefna ævintýralegan uppgang Solana kerfisins sem hefur staðið af sér gríðarlega umferð vegna nýja jarmmyntaflæðisins með lágmarks niðurtíma, DOT 2.0 uppfærsluna sem er væntanlegt innan tíðar með byltingarkenndum breytingum sem munu breyta landslagi Polkadot til frambúðar, og áfram mætti telja.

Framtíðin er því vægast sagt spennandi og verður gaman að fylgjast með gangi mála á komandi mánuðum.

Pétur Sigurðsson
ismynt ehf.