3. Febrúar 2024
Bitcoin (BTC)
ismynt.is
Síðastliðin ár hafa fjármálamarkaðir, bankar, stjórnmálamenn og fleiri, tjáð reiði sína vegna þeirrar meinsemdar sem sprottin er upp, að því er virðist, útfrá engu, og kolvarpaði þeim grundvallar lögmálum sem menn héldu að myndu ávallt skilgreina viðskipti. Ný leið til að miðla verðmætum manna á milli var komin fram í dagsljósið, fyrsta alvöru rafmyntin var byrjuð að sanna gildi sitt, og án þess að neinn banki eða milliliður hefði umsjón með millifærslunum. Þetta var Bitcoin, og voru fyrstu viðskiptin ekki stór, og verðmætið ekki mikið. Fyrstu skráðu kaup með Bitcoin voru 2 pítsur sem keyptar voru á 10.000 BTC. En hægt og rólega fóru einstaklingar að átta sig á möguleikum þessa nýja gjaldmiðils og verðmæti rafmyntarinnar óks gríðarlega. Í dag færðu að minnsta kosti 1.000 pítsur fyrir 1 BTC, og það eru ekki lengur bara tölvunerðir sem hafa áhuga, heldur eru það heilu þjóðríkin sem eru farin að tryggja sinn skerf af kökunni.
Bitcoin er ómiðlægur rafrænn gjaldmiðill, án aðkomu seðlabanka eða stjórnvalds, sem hægt er að senda á milli manna í gegnum netið án milligöngu þriðja aðila. Það var búið til 2009 af óþekktum einstakling eða hóp sem gengu undir dulnefninu Satoshi Nakamoto. Bitcoin keyrir á opinberri færsluskrá sem kallast bálkakeðjan, sem heldur utan um allar færslur sem gerðar eru með rafmyntinni. Bitcoin er hannað til að vera aðeins 21 milljón einingar alls. En hver eining er niðurbrjótanleg í 100 milljón smærri einingar sem kallast satoshis.
Hvernig virkar Bitcoin?
Bitcoin er kerfi sem byggir á því að búnar eru til stærðfræðilegar eignir með svokölluðum námugreftri. Þessi námugröftur gengur út á það að tölvur reikna út formúlu og reyna að finna lausn sem gengur upp. Þegar lausnin er fundin verður til eign í Bitcoin kerfinu, þessa eign er hægt að senda á milli veskja og brjóta niður í smærri einingar. Eignin sjálf er kölluð BTC eða Bitcoin, sem er einnig nafnið á kerfinu öllu. Til að ráðstafa eigninni þarf að vera með lykil sem tengdur er henni, en með þessum lykli er hægt að kalla á að eigninni sé útdeilt til annarra lykla. Í hvert sinn sem að lausn finnst á formúlunni, þá er búið að umbreyta gögnum í löglega blokk, gögnin í blokkinni eru upplýsingar um eignir og hvert þeim sé ráðstafað, og blokkinni er bætt efst á bálkakeðjuna. Bálkakeðjan er þannig fullkomið bókhald yfir allar millifærslur sem hafa átt sér stað í Bitcoin kerfinu.
Í einföldu máli er hægt að brjóta niður virkni Bitcoin i tvo hluta (þýtt af texta frá Hal Finney 11. febrúar 2011):
Hvernig eru bitcoins búnir til?
Allir þáttakendur á netverkinu keppast við að vera sá fyrsti til að leysa tölfræðilega erfiða þraut. Sigurvegarinn er verðlaunaður með 50 nýjum bitcoins. Erfiðleikastig þrautarinnar er aðlagað þannig að það tekur alltaf um það bil 10 mínútur að leysa hana, sem tryggir hæga og umráðanlega aukningu á bitcoins í umferð. 50 bitcoin-a verðlaunin eru helminguð á 4 ára fresti, þannig að heildar magn bitcoins sem verður búið til mun ávallt haldast undir 21 milljón.
Hvernig eru bitcoins færðir?
Bitcoins eru tengdir lyklum sem eigandi þeirra einn hefur aðgang að. Til að millifæra myntirnar til einhvers annars (td. til að framkvæma greiðslu), þá tilkynnir eigandinn á Bitcoin netverkinu undirskrifuð skilaboð með lyklinum, sem innihalda upphæð millifærslunar og addressu móttakandans. Þessar upplýsingar eru geymdar á dreyfðum gagnagrunni sem er viðhaldið af Bitcoin netverkinu sem heldur utan um allar innistæður á öllum addressum á netverkinu. Bitcoin-core hugbúnaðurinn sannreynir undirskriftina og uppfærir inneign sendanda og móttakanda samkvæmt millifærslunni. Móttakandinn mun þá geta fært sína nýju inneign á annan viðtakanda.
Satoshi Nakamoto
Bitcoin var búið til af persónu eða hópi sem kallaði sig Satoshi Nakamoto, en enginn veit með vissu hver sá einstaklingur er, eða þá hvort hann hafi verið einn að verki eða hvort að um marga einstaklinga var að ræða. Eftir útgáfu Bitcoin hvarf Satoshi Nakamoto af sjónarsviðinu og hefur ekkert heyrst frá honum síðan.
Eftir Bitcoin hafa margar rafmyntir komið á sjónarsviðið. Flestar þeirra reyna að leysa vankanta sem þykja vera á Bitcoin, á meðan aðrar reyna að bæta á það kerfi sem Bitcoin er og bæta við það nýrri virkni. Í dag eru mörg þúsund rafmyntir til, og fjölgar þeim daglega, og munu áhrif rafmynta á verslun, fjármálamarkaði, og líf fólks halda áfram að aukast.