10. Janúar 2024

Úrskurður Fjármálaeftirlits Bandaríkjana (S.E.C.) varðandi Bitcoin kauphallarsjóði

Pétur Sigurðsson, stofnandi ismynt ehf.

Bitcoin kauphallarsjóðir (E.T.F.) hafa nú endanlega verið samþykktir í Bandaríkjunum af fjármálaeftirliti Bandaríkjanna (S.E.C.) og er þetta mikill sigur fyrir rafmyntaiðnaðinn um heim allan. Mikil spenna hefur verið í kringum ákvörðunina, en meira en áratugur er frá fyrstu umsókninni, og hafa alls 12 umsóknir verið lagðar fyrir fjármálaeftirlitið af ýmsum stórum aðilum innan bandaríska fjármálageirans og má þar nefna Fidelity, Grayscale, Blackrock, Invesco og Goldman Sachs.

Með reglugerðinni opnar fyrir almenna fjárfestingu sjóða og fyrirtækja í Bandaríkjunum í Bitcoin sem ekki áður hefur verið lagalegur grundvöllur fyrir. Með kauphallarsjóði (ensk. Exchange-Traded Fund eða E.T.F.) sem byggður er á Bitcoin, er bandarískum lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestingarsjóðum gefið tækifæri til að fjárfesta óbeint í Bitcoin í gegnum téða sjóði.

Það má gera ráð fyrir að þetta muni auka fjárstreymi enn frekar í rafmyntaheiminn og er útlit fyrir miklar sveiflur á næstunni. Einnig er þetta mikil viðurkenning á rafmyntum sem raunverulegum fjárfestingarkosti, sem verður nú boðinn samhliða almennum fjárfestingarkostum og verðbréfum af bandarískum verðbréfamiðlurum og kauphöllum. Rafmyntir hafa orðið fyrir mikilli andstöðu frá aðilum innan bandaríska fjármálageirans síðastliðin ár, og hafa margir stillt sér upp í fylkingar með, eða á móti, rafmyntum almennt.

Má leiða að því líkum að ákvörðunin opni dyrnar fyrir kauphallarsjóði fyrir aðrar rafmyntir, og mætti þar til dæmis nefna Ethereum, Polkadot og Ripple. Vitað er að nú þegar hafa verið lagðar fram umsóknir um nokkra þeirra.

Þessi ákvörðun Fjármálaeftirlits Bandaríkjanna mun stuðla að því að rafmyntir verði samþykktar almennt sem nútímalegur fjárfestingarkostur. Við vonum að þessi þróun verði til þess að litið verði á rafmyntir sem tækniþróun sem samfélagið mun sjá sér hag í að innleiða og nýta sér, en ekki einhversskonar undirheimatól sem aðeins nýtist glæpamönnum einsog margir hafa viljað meina hingað til.

Pétur Sigurðsson
ismynt ehf.