16. Júlí 2024
Meme-tóken og rafmynt
Pétur Sigurðsson, stofnandi ismynt ehf.
Hver er munurinn á Meme-tóken og rafmynt?
Nú nýverið hefur sprottið upp urmull af tókenum, sem mörg hver bera skemmtileg og spennandi nöfn, og eru oft markaðsett af áhrifavöldum og tik-tokurum sem spennandi fjárfesting. Þessi tóken gætu í fyrstu litið út einsog rafmyntir, en eru það í sjálfu sér ekki. Það er hinsvegar skiljanlegt að sumir átti sig ekki á því, þar sem að þær keyra á bálkakeðjunni og notast við tækni beintengda bálkakeðjunni.
Sum tóken hafa mikilvægan tilgang, svosem svokallaðar "stablecoins", sem eru tóken sem halda verðgildi sínu jafnt á við einhvern ákveðinn gjaldmiðil, annað dæmi eru svokölluð "wrapped-tokens" sem halda sínu verðgildi jafnt á við ákveðna rafmynt, þessi tóken eru oft með innbyggðum tæknilegum útfærslum sem stjórnar magni sem er í umferð með td. snjallsamningum. En meme-tóken eru annarslags, þau eru búinn til af aðilum, sem hafa sjálfir fulla stjórn á magni þessa tókens í umferð. Það þarf því að vera til staðar mikið traust til þess aðila sem býr tókenið til. Því ef hann kýs, þá getur hann búið til endalaust magn af tókeninu og gengisfellt það fullkomlega meðan hann gengur í burtu með gróðan. Að því leiti eru tókenin byggð að öllu leiti á félagslegum þætti, trausti, því þær eru ekki takmarkaðar af kóðanum sem keyrir bálkakeðjuna, heldur persónunni sem bjó tókenið til.
Uppgangur Meme-tókenana
Þessi tóken hafa fengið byr undir báða vængi nýlega þegar að Solana byrjaði að styðja framleiðslu á svona tókenum fyrir mjög lágt verð og tilstang. Þannig gátu allir búið til sitt tóken á mjög einfaldan hátt og sett það til sölu á DEX mörkuðum á Solana bálkakeðjunni. Þetta varð gífurlega vinsælt og rauk verðið á SOL upp. Þetta svipaði mikið til NFT æðisins sem greip um sig fyrir nokkrum árum, og líkt og þá, þá virðast flestir hafa hlupið á sig. Því að lang flest þessara tókena voru búin til með loforðum um einhversskonar aðhaldsemi skapara tókensins, sem svo var ekkert nema orðin ein því nánast öll tókenin hafa verið gengisfelld af upphaflega skaparanum og hann hefur gengið í burtu með markaðsvirðið. Þetta gekk svo langt að búin voru til forrit sem sjálfkrafa bjuggu til tóken og gengisfelldu stuttu seinna eftir fyrirfram ákveðnum skilyrðum. Þannig hafa orðið til mörg hundruð þúsunda tókena á Solana sem þjónuðu þeim einum tilgangi að féfletta.
Nú sitja margir eftir með sárt ennið og bölva rafmyntum, en þar er ekki allt með réttu. Því að rafmyntir í sjálfu sér eru ekki alltaf það sama og tóken á bálkakeðju. Þegar talað er um rafmyntir, þá er átt við það sem kallast ómiðlæg rafmynt, sem keyrir á bálkakeðju. Ómiðlægar rafmyntir eru forritaðar með fyrirfram ákveðnu magni í umferð. Og ef það er ekki fast magn, þá er það föst aukning á magni, þannig að það er fyrirsjáanlegt hvert magnið í umferð er hverju sinni. Einnig eru ómiðlægar bálkakeðjur og rafmyntir þannig kóðaðar, að ekki er hægt að auka magn í umferð með tilstilli einhvers ákveðins einstaklings. Þetta eru grundvallar atriðið ómiðlægra rafmynta.
Þannig má ekki rugla þessum tókenum saman við sjálfar bálkakeðjurnar sem eru í sjálfu sér undirstaðan á kerfinu sem býr til tókenin. SOL, Bitcoin, Ethereum, Polkadot og aðrar rafmyntir eru tækniframför sem heimurinn er rétt byrjaður að átta sig á. Nú nýlegt dæmi um vakninguna er sjálfur forstjóri stærsta fjáfestingarsjóðs í heiminum, BlackRock, að viðurkenna notagildi Bitcoin.
Því er gott að ráðleggja öllum sem hyggjast fjárfesta í rafmyntum, að halda sig alfarið frá öllum "meme"-tokenum. Þar falla undir allar þær meme-"myntir" sem hafa verið gerðar á Solana bálkakeðjunni, BNB, Ethereum og fleirum. Að þessu leiti er vert að geta þess að allar rafmyntir á ismynt.is eru ómiðlægar rafmyntir með fyrirfram ákveðnu magni í umferð.
Það er leiðinlegt að sjá fólk tapa peningum þegar það fellur fyrir NFT eða meme-token gylliboðum, og það setur raunverulegan blett á rafmyntaheiminn, og því er gott að vita muninn á alvöru rafmyntum og tókenum sem eru búinn til á bálkakeðjum fyrir slikk.